01/27/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/27/2026 10:56
Alþjóðlegur minningardagur um helförina er ár hvert þann 27. janúar en þann dag árið 1945 frelsaði sovéski herinn eftirlifendur í Auschwitz-Birkenau. Á þessum degi er þeirra 6 milljón gyðinga sem fórust í helförinni minnst, sem og annarra fórnarlamba ofsókna nasista.
Árið 2023 skipaði þáverandi forsætisráðherra starfshóp um minningardag um helförina á Íslandi. Fram að þessu hefur dagsins ekki verið sérstaklega minnst með formlegum hætti á Íslandi en tillögur hópsins sem voru kynntar á fundi ríkisstjórnar í dag snúa m.a. að mögulegum formlegum ákvörðunum stjórnvalda, tilhögun árlegrar minningarathafnar á minningardegi um helförina sem og tillögum að aðgerðum til að varðveita gögn og minjar um sögu Gyðinga á Íslandi og annarra sem urðu fórnarlömb nasista. Forsætisráðherra hyggst skipa vinnuhóp með fulltrúum ráðuneyta til að vinna úr tillögum hópsins.
Í dag hélt forsætisráðuneytið, í samvinnu við sendiráð Póllands og Þýskalands, móttöku í húsakynnum pólska sendiráðsins. Þar flutti forsætisráðherra ávarp og áréttaði m.a. mikilvægi þess að þessarar myrku sögu sé minnst og af henni séu dregnir lærdómar til framtíðar. Þá fluttu sendiherrar Póllands og Þýskalands ávörp og Avraham Feldman rabbíni flutti minningarorð. Tónlistarflutningur var í höndum Hrannar Þráinsdóttur píanóleikara og Hallveigar Rúnarsdóttur sópran og fluttu þær m.a. verk eftir Victor Urbanic, sem flúði ofsóknir nasista í Austurríki en kona hans Melitta Grunbaum var af gyðingaættum.