Ministry for the Environment, Energy and Climate of Iceland

01/28/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/28/2026 09:22

Ráðherra staðfestir nýja reglugerð um hvata- og stuðningsverkefni í landgræðslu og skógrækt

28. janúar 2026 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra staðfestir nýja reglugerð um hvata- og stuðningsverkefni í landgræðslu og skógrækt

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest nýja reglugerð um hvata- og stuðningsverkefni í landgræðslu og skógrækt. Markmið reglugerðarinnar er að hvetja til og styðja við verkefni og framkvæmdir þeirra sem vinna að landgræðslu, skógrækt og vernd og endurheimt vistkerfa og stuðla með því að jákvæðum áhrifum á loftslag og líffræðilega fjölbreytni.

Með setningu reglugerðarinnar er orðinn til samræmdur rammi fyrir stuðningsverkefni og úthlutun styrkja á sviði landgræðslu og skógræktar í þágu einfaldari stjórnsýslu, skýrari reglna og aukins gagnsæis.

Reglugerðin er sett á grundvelli laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt og markar mikilvæg skref í að vernda, endurheimta og bæta auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi.

Með reglugerðinni eru kynnt til sögunnar ný verkefni sem geta nú hlotið stuðning, þar á meðal:

  • Verndun kolefnisríkra vistkerfa og vistkerfa sem eru mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni.
  • Gerð heildstæðra landnýtingaráætlana fyrir jarðir, vatnasvið og/eða landslagsheildir.
  • Fræðsla, vöktun og samfélagsverkefni.

Jafnframt eru talin upp styrkhæf verkefni sem mörg hver hafa notið stuðnings ríkisins um árabil. Þar má meðal annars nefna varnir gegn landbroti, endurheimt votlendis, landgræðslu, skógrækt og skjólbeltarækt.

"Það er til mikils að vinna með vernd vistkerfa, endurheimt votlendis og landgræðslu og skógrækt. Eitt af forgangsverkefnum þessarar ríkisstjórnar er endurheimt votlendis og vistkerfa því með henni sláum við svo margar flugur í einu höggi. Þetta er lykilaðgerð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, til verndar líffræðilegri fjölbreytni, til að auka áfallaþol gegn náttúruvá og til að tryggja náttúruverðmæti til framtíðar. Með reglugerðinni styðja stjórnvöld betur við líffræðilega fjölbreytni og landgræðsluverkefni en áður, við styðjum við fleiri verkefni og sköpum skýrari og einfaldari ramma um samstarf milli stjórnvalda og einstaklinga, sveitarfélaga, félagasamtaka, fyrirtækja og annarra sem vinna að þessum mikilvægu verkefnum." segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Land og skógur mun auglýsa árlega eftir umsóknum um stuðning, sjá um samningsgerð, hafa eftirlit með framkvæmda verkefna og meta árangur þeirra í samræmi við lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt.

Setning reglugerðarinnar er í samræmi við aðgerðaráætlunina Land og líf, stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, aðlögunaráætlun í loftslagsmálum og stefnu stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni.

Reglugerð um hvata- og stuðningsverkefni í landgræðslu og skógrækt

Efnisorð

Til baka
Ministry for the Environment, Energy and Climate of Iceland published this content on January 28, 2026, and is solely responsible for the information contained herein. Distributed via Public Technologies (PUBT), unedited and unaltered, on January 28, 2026 at 15:22 UTC. If you believe the information included in the content is inaccurate or outdated and requires editing or removal, please contact us at [email protected]