Prime Minister's Office of Iceland

01/14/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/14/2026 10:53

Vinnufundur forsætisráðherra og forseta framkvæmdastjórnar ESB

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hélt í dag til Brussel þar sem hún átti vinnufund með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB).

Á fundinum ræddu þær stöðu alþjóðamála, öryggis- og varnarmál, efnahags- og tollamál, málefni Evrópska efnahagssvæðisins og samstarf Íslands við ESB.

"Ég átti góðan fund með forseta framkvæmdastjórnarinnar í dag, þar sem við fórum yfir helstu sameiginlegu hagsmunamál Íslands og ESB. Við ræddum meðal annars losunarheimildir í flugi og sérstaka undanþágu Íslands sem rennur út í lok árs. Þetta er afar mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenska flugrekendur og við áttum uppbyggilegt samtal um hugsanlegar lausnir fyrir Ísland," segir forsætisráðherra.

"Öryggis-og varnarmál í álfunni og ekki síst hér á Norðurslóðum eru ofarlega í huga allra og áttum við einnig hreinskiptið samtal um stöðuna eins og hún blasir við núna. Við áréttuðum báðar afdráttarlausan stuðning okkar við Grænland og Danmörku," segir Kristrún.

"Samskipti ESB og Íslands standa á afar traustum grunni og í ljósi aðstæðna er mikilvægt að halda áfram öflugri hagsmunagæslu við forsvarsmenn framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkja ESB."

Vinnufundurinn í dag er liður í áframhaldandi samtali um samstarf Íslands og ESB en forsætisráðherra átti á síðasta ári tvo fundi með forseta framkvæmdastjórnar ESB, þann fyrri í Brussel í apríl og þann síðari á Íslandi í júlí.


Prime Minister's Office of Iceland published this content on January 14, 2026, and is solely responsible for the information contained herein. Distributed via Public Technologies (PUBT), unedited and unaltered, on January 14, 2026 at 16:53 UTC. If you believe the information included in the content is inaccurate or outdated and requires editing or removal, please contact us at [email protected]